Ég er 1 af 6
“She’s been through more Hell then you’ll ever know. But, that’s what gives her beauty an edge.....
You can’t touch a woman who can wear pain like the grandest of diamonds around her neck.”
Vonir, væntingar, grátur, biturleiki, uppgjöf, gleði, sorg, styrkur og einmanaleiki, hafa verið hluti af mér í glímunni við ófrjósemi. Ég hef þurft að sætta mig við það að meðferð á borð við glasafrjóvgun er eina leiðin til þess að ég geti eignast börn en búið er að fjarlægja hjá mér báða eggjaleiðara. Þetta hefur verið stór biti að kyngja og í sáttarferlinu hef ég oft á tíðum grátið og öskrað “af hverju ég”. Mun ég einhverntíman sættast við þetta hlutverk?
Að sætta sig við að geta ekki eignast barn er langt ferli sem getur tekið á, upplifunin að vera þessi ónýti einstaklingur er alveg nóg en svo er það einmanaleikinn, að tilheyra ekki hóp sem þú þráir svo mikið, standa fyrir utan og horfa á alla hina sem eru að lifa drauminn þinn, og þú spyrð þig “hvenær fæ ég”.
Ég er svo ótrúlega heppin að eiga yndislegan mann sem hefur staðið þétt við bakið á mér, sýnt mér ótrúlega þolinmæði, stappað í mig stálinu, tekið utan um mig og leyft mér að gráta í fanginu á sér. Hann hefur verið minn besti vinur og minn mikilvægasti hlekkur í þessari glímu og er ég eilíflega þakklát fyrir að eiga hann að. Þegar ég stakk upp á því eitt vetrarkvöld að prófa eina meðferð enn, því við áttum alveg eftir að heimsækja nýju Klinikina því það er alltaf þessi von sem lætur mann fljótt gleyma hormónasprautunum, endurteknum læknaheimsóknum, eggheimtunni, uppsetningunni og 14 daga biðinni eftir þungungarprófinu svo ekki sé talað um sorgina þegar niðurstaðan er svo neikvæð. Þegar vonin er til staða þá er það allt í einu góð hugmynd að byrja á öllu upp á nýtt og panta tíma.
Í desember 2016 hófst svo meðferðin, “prófum enn einu sinni meðferðin”. Það besta sem ég gerði fyrir þessa meðferð var að leita til Margrétar Knútsdóttur, hjá henni gat ég talað um þetta ósanngjarna hlutverk með kökk í hálsinum og tárin í augunum og þar fékk ég að heyra í fyrsta skipti að ég ætti rétt á öllum þessum tilfinningum og þær væru fullkomlega eðlilegar. Í tímunum hjá Margréti jarðaði ég sorgina og leyfði mér að sjá fyrir mér mig með lítil barn.
Þann 25.janúar 2017 var settur upp einn 5 daga fósturvísir, “prófum einu sinni enn meðferðin” var að gefa okkur okkar besta fósturvísi og svo hófst biðin, 14 langir dagar. Þú reynir að hugsa alls ekkert um þetta en treystu mér það er ekki hægt, alveg sama hvað þú reynir og þetta verða 14 lengstu dagar lífs þíns. Prófdagur rann upp og ég gat ekki orðið annað en hissa þegar jákvæð niðurstaða kom. Skrítin tilfinning að horfa á jákvætt próf, eftir allt þetta ferðalag þá þoriru samt ekki að hoppa af kæti og reka upp gleðióp, því þú ert svo vön að upplifa sorgina að þú kannt ekki á þessa gleðitilfinningu. Gleðin var svo allsráðandi þann 12.október þegar gulleggið kom í heiminn, fullkominn strákur.
Okkar “prófum einu sinni enn meðferð” var okkar síðasta meðferð og erum við fullkomlega sátt við það. Við vorum ekki tilbúin til þess að gefast upp en núna erum við tilbúin til þess að njóta, leggja til hliðar fjárhagsáhyggjur, allskonar tilfinningar og biðina upp á von og óvon.
-Þóra Magga Birgisdóttir & Arnþór Pálsson