Skemmtilegasti tími ársins, Skattaskýrslan!
Framtalsleiðbeiningar eru kannski ekki skemmtilegasta lesning í heimi, en í kafla 7.8.1 Lækkun vegna veikinda, slysa eða ellihrörleika kemur fram að hægt sé að fá ívilnun (lækkun á tekjuskattstofni) vegna kostnaðar við glasa- eða tæknifrjóvgun - sem og lyfjakostnaðar, og fyrir félagsmenn okkar utan höfuðborgarsvæðisins er líka hægt að fá lækkun vegna ferðakostnaðar sem er vegna veikinda/slysa og fæst ekki endurgreiddur.
Við hvetjum ykkur öll til að nýta ykkur þessa ívilnun. Munið bara að láta öll gögn fylgja: Kvittanir fyrir þjónustu Livio (IVF kliníkin) Útprentun á lyfjakostnaði frá apóteki eða apótekum (taka saman það sem tilheyrir tæknifrjóvgunum) Það er beðið um læknisvottorð líka en hugsanlega duga kvittanirnar frá Livio (IVF kliníkin) auk skriflegra útskýringa. Hægt er að skanna inn skjölin og senda þau rafrænt, og senda útskýringu með í textaskjali. Sjá 7.8.8 Rafræn skil á vottorðum og viðbótargögnum.
Fyrir þau ykkar sem hafa hugsanlega sett þetta inn á fyrri skattaskýrslu og fengið synjun vegna ófullnægjandi gagna þá er hægt að safna saman öllum gögnum og skila inn erindi skv. 101. gr. tekjuskattslaga. Sjá kafla 7.8 Umsókn um lækkun á tekjuskattstofni.
Gangi ykkur vel og vonandi kemur þetta ykkur að góðum notum.