Vitundarvakningarvika 2025
Vitundarvakningarvika 2025
Dagana 1.–9. nóvember stóð Tilvera fyrir vitundarvakningarviku í tilefni Evrópsku vitundarvakningarvikunnar um ófrjósemi. Vikan einkenndist af samstöðu, fræðslu og opnum samtölum um málefni sem snerta fjölda fólks. Markmiðið var að efla vitund og skilning á ófrjósemi, stuðningi og frjósemisfræðslu — og skapa vettvang þar sem umræðan er bæði nærandi og uppbyggileg.
Fulltrúar Tilveru voru sýnilegir víða í fjölmiðlum og vöktu athygli með viðtölum og greinaskrifum.
Formaðurinn María Rut, gjaldkerinn Sigríður og ritari félagsins Anna ræddu málefnið bæði á Rás 1 og í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni, þar sem áhersla var lögð á að aðgengi að frjósemismeðferðum mætti ekki ráðast af efnahag.
Auk þess birtust þrjár áhrifamiklar skoðanagreinar á Vísi sem fjölluðu um frjósemisvitund ungs fólks, samfélagslega ábyrgð í málefnum ófrjósemi og mikilvægi þess að þekking á frjósemi sé ekki lúxus, heldur lífsnauðsyn. Hægt er að lesa greinarnar með því að fara í flipann Tilvera í fjölmiðlum undir flokknum Um Tilveru hér á heimasíðunni.
Í tilefni vikunnar stóð félagið fyrir sölu á varningi og happdrætti í Smáralind og Kringlunni. Þar gafst almenningi tækifæri til að leggja félaginu lið, kynna sér starfsemina og eiga samtal.
Hápunktur vikunnar var þó skemmtikvöld Tilveru sem haldið var í Sigtúni 42. Þar fylltist húsið af hlátri, fróðleik og gleði þegar félagsfólk og gestir komu saman til að fræðast, skemmta sér og fagna samstöðu.
Kynfræðingurinn Áslaug Kristjánsdóttir hóf kvöldið með opinskáu og áhugaverðu erindi um kynlíf og ófrjósemi.. Þá tók Hermosa.is við með létta og forvitnilega kynningu á nýjustu kynlífstækjunum á markaðnum áður en Guðmundur Einar uppistandari steig á svið og lét salinn hristast af hlátri með bráðfyndnu uppistandi sínu.
Í lok kvöldsins var svo ný heimasíða Tilveru – tilvera.is – formlega opnuð. Þar má finna fræðslu, stuðning og samfélag fyrir alla sem vilja fræðast um ófrjósemi og tengd málefni.
Vitundarvakningarvikan fór afar vel fram og fékk góðar viðtökur. Hún minnti á mikilvægi þess að halda áfram að tala opinskátt um ófrjósemi – því með fræðslu, samstöðu og samtali getum við dregið úr fordómum, aukið skilning og stutt þau sem standa frammi fyrir þessum áskorunum.
Tilvera þakkar öllum sem tóku þátt í vikunni og hvetur alla til að kynna sér efnið á nýju heimasíðunni tilvera.is – og taka þátt í að halda umræðunni lifandi.






