Fréttabréf mars 2025


Heil og sæl kæra félagsfólk Tilveru!


Stjórn Tilveru langaði að endurvekja fréttabréf Tilveru og með því ná betur til félagsfólks samtakanna. Í fréttabréfinu munum við upplýsa betur um starf samtakanna og hvað er í deiglunni á næstunni. Stefnt er að því að fjögur fréttabréf birtast á ári, svo fylgist með. Ef þið hafið áhuga á að senda okkur fréttir eða upplýsingar sem þið teljið eiga heima í fréttabréfinu þá sendið okkur póst á tilvera@tilvera.is

Verið er að leggja lokahönd á nýja heimasíðu samtakanna sem við vonumst til að verði aðgengilegri fyrir félagsfólk og þar munum við auka aðgengi að fræðslu um ófrjósemi og beina fólk í rétta átt varðandi aðstoð.

Í lok síðasta árs var árlegt happdrætti Tilveru haldið og heppnaðist það mjög vel. Fengum við fullt af flottum vinningum í happdrættið frá frábærum styrktaraðilum og miðasalan gekk vonum framar. Enn eru nokkrir vinningar ósóttir þannig að endilega látið okkur vita ef þið eigið ósótta vinninga.


Tilvera hefur í gegnum árin verið með ókeypis sálfræðiráðgjöf einu sinni í mánuði hjá Aldísi Evu Friðriksdóttur sálfræðingi fyrir félagsfólk og hefur þar ávallt verið mjög góð skráning í tímana. Þetta er mjög mikilvæg þjónusta sem Tilvera býður upp á uppá og stefnan er að halda því áfram á árinu. Tímarnir eru auglýstir inni á Facebook hópum Tilveru.

Kaffihúsaspjöll Tilveru hafa einnig verið vinsæl og góð leið fyrir félagsfólk að hitta og spjalla við aðra sem eru í sömu stöðu, fá ráð og stuðning. Kaffihúsaspjöllin verða áfram partur af dagskránni einu sinni í mánuði í húsakynnum okkar í Sigtúni 42 og eru auglýst vel inn á síðum félagsins.


Stjórnin ákvað síðasta haust að bæta við foreldramorgnum á dagskrá. Margt félagsfólk Tilveru sem nær árangri í meðferðum upplifir að þeir þurfi stuðning eftir að óléttan er staðfest eða barnið hefur fæðst. Gott er því að hitta fólk sem hefur gengið í gegnum það sama og þau. Foreldrahittingarnir hafa verið vel sóttir og er mikil ánægja með að hittast og spjalla. Ótrúlega gaman er að sjá börnin hittast og pör og foreldrar að tengjast.


Tilvera hefur í gegnum tiðina alltaf tekið á móti erlendum stofum sem vilja halda fundi á Íslandi og hitta skjólstæðingana sína í persónu áður en haldið er erlendis í meðferð. Stofur eins og Serum og IVF Riga hafa verið duglegir að koma til landsins. Síðasta haust bættist einnig við gríska stofan Sillipsis sem margir eru kunnugir þar sem starfsfólk þeirra starfaði áður hjá Serum í Aþenu. Við munum halda áfram að bjóða stofum upp á að koma til landsins og halda viðtöl með tilvonandi skjólstæðingum, en okkur finnst þetta mjög mikilvæg þjónusta fyrir félagsmenn.

Í febrúar fékk félagið boðsmiða frá Þjóðleikhúsinu á leiksýninguna Yerma. Sýningin fjallar um par sem gengur í gegnum ófrjósemi og áhrif sjúkdómsins á sambönd og líðan. Félagsfólk tók mjög vel í boðið og gaman að segja frá því að yfir 40 manns mættu á sýninguna. Þökkum Þjóðleikhúsinu kærlega fyrir mjög flotta sýningu og að vekja athygli á málstaðinn.


Í deiglunni á næstunni er að María, formaður Tilveru, mun fara út á vegum félagsins til Brussel þar sem hún mun sitja árlegan fund með Fertility Europe og fleiri aðildarfélögum. Mikilvægt er fyrir félagið að efla samstarf við önnur félög í Evrópu, skiptast á reynslu og fræðast enn meira til að geta unnið vel fyrir okkar málefni. T.d. hefur Fertility Europe búið til leik áætlaðan fyrir unglingastig í grunnskóla semTilvera hefur nú þýtt og er stefnan á að koma þeim leik inn í skóla landsins. Leikurinn heitir FActs! og mun líka vera aðgengilegur á nýrri heimasíðu Tilveru.

  • 12. apríl verður svo árleg páskaeggjaleit. Páskaeggjaleitin hefur alltaf verið mjög skemmtilegur viðburður og vinsæll meðal barna og fullorðinna.
  • 25.maí munum við svo halda árlegt sumargrilll Tilveru. Grillaðar verða pulsur og hamborgarar og skemmtum okkur saman.


Hlökkum til að hitta ykkur!


Stjórn Tilveru