Saga Tilveru

Um Tilveru
Nafn samtakanna er Tilvera, samtök um ófrjósemi. Á ensku heita samtökin The Icelandic Infertility Association. Tilvera, samtök gegn ófrjósemi var stofnuð 19. nóvember 1989. Framhalds stofnfundur var haldinn 10. febrúar 1990 þar sem lög félagsins voru samþykkt. Stofnendur voru pör sem fóru í tæknifrjóvgun til Bourn Hall Clinic í Bretlandi.
Markmið félagsins er að vera málsvari þess fólks sem á við ófrjósemi að stríða út á við, gagnvart heilbrigðisyfirvöldum og annars staðar þar sem þurfa þykir. Einnig er félagið málsvari annarra sem þurfa að nýta sér tæknifrjóvgunarmeðferðir. Þá gætir félagið hagsmuna þessara hópa og skal veita almenna fræðslu um mál sem varða skjólstæðinga Tilveru á heimasíðu sinni og með öðrum leiðum eftir því sem kostur er.
Tilvera heldur úti 9 facebook hópum fyrir félagsfólk, hóparnir eru;
Tilvera, Tilvera-meðferðir erlendir, Tilvera-meðferðir, Tilvera-gjafakynfrumur, Tilvera-karlmenn, Tilvera- ófrískar eftir ófrjósemi, Tilvera- hópur fyrir egg- og sæðisgjafa, Tilvera-lífið eftir meðferðir án árangurs, Tilvera- Foreldrar eftir ófrjósemi.
Félagið býður upp á fría sálfræðiráðgjöf eitt kvöld í mánuði hjá Aldísi Evu Friðriksdóttur sálfræðing sem sérhæfir sig í ófrjósemi og andlegri líðan.
Við erum með mánaðarleg kaffihúsaspjöll sem eru stuðningshópar fyrir félagsfólk í húsakynnum okkar hjá ÖBÍ þar sem hægt er að leita ráða og stuðnings hjá hvort öðru. Sérstök kaffihús fyrir þá sem þiggja gjafakynfrumur og karlmenn hafa einnig verið haldin.
Foreldramorgnar eru einnig haldnir mánaðarlega og eru fyrir þau sem hafa náð árangri í meðferðum en upplifa að þau þurfi stuðning eftir að óléttan er staðfest eða barnið hefur fæðst.
Reglulega er einnig haldnar fræðslur fyrir félagsfólk sem eru auglýstar í facebook hópum Tilveru og á heimasíðunni.
Tilvera hefur í gegnum tíðina barist fyrir auknum niðurgreiðslum á meðferðum, átt fundi m.a. með heilbrigðisráðherra, verið í samstarfi við önnur félög á norðurlöndum og í Evrópu, ásamt mörgu öðru.
Eitt af baráttumálum Tilveru núna er að öll stéttarfélög setji inn klausuna um 15 daga fjarveru frá vinnu vegna tæknifrjóvgunar í kjarasamninga sína til að allir eigi rétt á sama orlofi.
Tilvera hefur einnig látið þýða fræðsluleikinn FACTs sem er frá Fertility Europe og er gefinn út á mörgum tungumálum. Leikurinn er sérstaklega miðað að 15-18 til að fræða þau um hvernig viðhalda má frjósemi.
