Aðalfundur 2025

tilverastjorn • 7. nóvember 2025

Share this article

Aðalfundur 2025

Aðalfundur Tilveru, samtaka um ófrjósemi, var haldinn í húsnæði félagsins að Sigtúni 42 þann 6. nóvember 2025.


Fundurinn var vel sóttur og fór fram í góðum anda.

María Rut Baldursdóttir, formaður, flutti skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2024–2025.

Þar kom fram að árið einkenndist af samstöðu, virkni og áframhaldandi uppbyggingu á starfi félagsins. Tilvera hélt úti reglulegri fræðslu og stuðningi fyrir félagsfólk, tók þátt í alþjóðlegu samstarfi og stóð fyrir norrænum fundi í Reykjavík í september.


Gjaldkeri Sigríður Auðunsdóttir kynnti reikninga félagsins, sem voru samþykktir án athugasemda, og ný stjórn var kjörin.
Alda Magnúsdóttir Jacobssen bætist nú í stjórn Tilveru ásamt þeim sem fyrir eru í stjórn og skipar stjórn Maríu Rut Baldursdóttur formaður, Erlu Rut Haraldsdóttur varaformaður, Sigríði Auðunsdóttur gjaldkeri, Önnu Þorsteinsdóttur ritara og Jenny Eriksson meðstjórnanda.

Einnig voru samþykktar breytingar á lögum félagsins sem miða að skýrara skipulagi og auknum sveigjanleika í starfsemi.

Formaður þakkaði félagsfólki, samstarfsaðilum og styrktaraðilum fyrir góðan stuðning á árinu og hvatti fleiri til að taka virkan þátt í starfi félagsins.



Hér má sjá breytingar á  nokkrum greinum í lögum félagsins, en heildarlög félagsins verða birt á heimasíðunni.


Lög Tilveru

I. Heiti, heimili og markmið

1. grein
Nafn samtakanna er Tilvera, samtök um ófrjósemi. Á ensku heita samtökin The Icelandic Infertility Association. Heimilisfang samtakanna er á skrifstofu félagsins hverju sinni og varnarþing í því sveitarfélagi.
 

2. grein
Markmið félagsins er að vera málsvari þess fólks sem á við ófrjósemi að stríða út á við, gagnvart heilbrigðisyfirvöldum og annars staðar þar sem þurfa þykir. Einnig er félagið málsvari annarra sem þurfa að nýta sér tæknifrjóvgunarmeðferðir. Þá gætir félagið hagsmuna þessara hópa og skal veita almenna fræðslu um mál sem varða skjólstæðinga Tilveru á heimasíðu sinni, samfélagsmiðlum og með öðrum leiðum eftir því sem kostur er.
 

II. Aðalfundur Tilveru

3. grein
Aðalfundur Tilveru fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda árlega og eigi síðar en 1. desember hvert ár, eða þegar stjórn hefur tök á því. Staðsetning fundarins skal vera á höfuðborgarsvæðinu.
 
Stjórn félagsins skal boða til aðalfundar á heimasíðu og/eða samfélagsmiðlum félagsins og eftir atvikum með tilkynningum í fjölmiðlum og tölvupósti til félagsmanna ef ástæða þykir til. Boðað skal til aðalfundar með minnst sjö daga fyrirvara og skal þar koma fram dagsetning fundarins, dagskrá og fundarstaður. Telst hann löglegur sé rétt til hans boðað.
 
Dagskrá fundarins skal vera þessi:
1. Setning fundar og dagskrá kynnt.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skýrsla stjórnar og umræða.
4. Skoðaðir reikningar lagðir fram og bornir upp til samþykktar.
5. Félagsgjöld næsta árs ákveðin.
6. Skýrslur nefnda, ef kjörnar hafa verið.
7. Tillögur/lagabreytingar frá stjórn, nefndum eða félagsmönnum.
8. Kjör stjórnar og varamanna og skoðunarmanna reikninga.
9. Önnur mál.
 
Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa þeir einir sem standa í skilum á félagsgjöldum. Eitt greitt félagsgjald jafngildir einu atkvæði, hvort sem um er að ræða félag, par eða einstakling.
 
Aukaaðalfund skal halda ef meirihluti stjórnar eða fimmtungur félagsmanna í félaginu óskar þess. Fundurinn skal boðaður með minnst viku fyrirvara. Sitja þeir stjórnarmenn sem þar eru kosnir til næsta reglulega aðalfundar.
 

III. Félagar í samtökunum

4. grein
Félagar í Tilveru geta orðið þeir einstaklingar, félög og fyrirtæki, sem vilja styðja við markmið félagsins og gengst undir lög þessi. Heiðursfélagar geta þeir orðið sem unnið hafa sérstakt starf að málefnum tengdum ófrjósemi. Stjórn tekur ákvörðun um kjör heiðursfélaga og er því lýst á aðalfundi.
Hægt er að gerast velunnari félagsins með því að greiða árgjald eða frjálst framlag til félagsins.
 

5. grein
Reikningsár félagsins er frá 1. október til 30. september næsta ár. Félagsgjald skal ákveða á aðalfundi ár hvert og félagsgjald er innheimt einu sinni á ári. Sá sem ekki greiðir félagsgjald fellur sjálfkrafa út úr öllum hópum samtakanna og af félagsskrá.
 


 

Recent Posts

Eftir tilverastjorn 30. október 2025
Vitundarvakningarvika um ófrjósemi 2025
Eftir tilverastjorn 30. október 2025
Jólahappdrætti
Eftir tilverastjorn 28. október 2025
Aðalfundur Tilveru
1. september 2025
Fréttabréf september 2025
31. mars 2025
Fréttabréf mars 2025