Test Support Test

Fréttabréf september 2025

Kæru félagar,

Vonandi hafið þið notið sumarsins.

Okkur langar að senda ykkur nokkur orð um það helsta sem hefur verið að gerast hjá félaginu frá síðasta fréttabréfi.

Í mars fór María, formaður Tilveru, til Brussel á árlegan vorfund Fertility Europe. Þar var megináherslan á FActs!-fræðsluleikinn og hvernig megi auka vitund og fræðslu um frjósemi meðal ungs fólks. Fundurinn heppnaðist afar vel og var bæði fræðandi og hvetjandi.

Í apríl hélt félagið páskaeggjaleit fyrir börn og fullorðna í Gufunesi. Góð þátttaka var í skemmtilegri leit, þar sem öll börn fengu páskaegg og glaðning að launum.

Mánaðarlegu stuðnings kvöldin, hin svokölluðu kaffihúsaspjöll, hafa einnig verið vel sótt. Slík kvöld eru afar mikilvæg fyrir félagsfólk, þar sem þau bjóða upp á tækifæri til að ræða opinskátt við fólk sem skilur aðstæðurnar og veitir gagnlegan stuðning.

Í júlí fóru Sigríður og Jenny til Parísar á ráðstefnu á vegum ESHRE, sem er ein sú stærsta í heimi um tæknifrjóvgun og ófrjósemi. Þær sóttu fjölmarga áhugaverða fyrirlestra um nýjustu rannsóknir og þróun á þessu sviði. Auk þess að efla tengslin við önnur systurfélög innan FE. Á ráðstefnunni fór einnig fram aðalfundur Fertility Europe, þar sem meðal annars var kosin nýja stjórn og rætt um takmarkanir varðandi gjafakynfrumur. Einn áhrifaríkasti viðburðurinn var frásögn einstaklings sem deildi sinni persónulegu reynslu af ófrjósemi.

Reykjavíkurmaraþonið var haldið 23. ágúst og hlupu þrjár konur fyrir félagið. Við þökkum þeim kærlega fyrir að hlaupa fyrir okkur og safna áheitum.

Í lok ágúst hófust stuðnings kvöldin aftur eftir sumarhlé, og það fyrsta var haldið þann 27. ágúst. Áfram verður boðið upp á þessi kvöld í vetur.

Dagana 12.–14. september fer fram fundur Nordic Fertility Network sem eru félagasamtök um ófrjósemi á Norðurlöndum hér á Íslandi, og tekur Tilvera þátt í skipulagningu hans. Fulltrúar frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi munu heimsækja landið og funda saman. Aðalumræðuefnið í ár verður andleg líðan fólks sem glímir við ófrjósemi.

Stjórnin er svo á fullu að plana viðburði fyrir haustið og hlökkum við til að deila með ykkur.

Við viljum svo aftur minna á að borga félagsgjöldin. En þau eru mikilvæg til að halda starfsemi félagsins áfram.

Hlökkum til að hitta ykkur sem flest í haust!

Stjórn Tilveru